Meðlagsgreiðendur
Samkvæmt íslenskum lögum er barni tryggð lágmarks framfærsla. Sá aðili sem stendur straum af framfærslu barnsins og barn á lögheimili hjá á rétt á meðlagi frá hinum meðlagsskylda.
Sýslumenn og dómstólar úrskurða um meðlagsskyldu. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að fyrirframgreiða meðlagið til rétthafa samkvæmt sérstakri beiðni og Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir það síðan af hinum meðlagsskylda. Það athugast að foreldrar geta farið þá leið að greiða meðlagið beint án aðkomu Tryggingastofnunar ríkisins. Meðlagsgreiðslum er svo oft sleppt þegar umgengni er jöfn og kostnaður vegna barnanna skiptist jafnt á milli foreldra, eins og tíðkast oft í dag.
Meðlagsskyldan nær til 18 ára aldurs barns. Heimilt er að úrskurða meðlagsgreiðenda til greiðslu menntunarmeðlags í að hámarki 2 ár til viðbótar. Nánari upplýsingar má finna hjá sýslumönnum um land allt og Tryggingastofnun ríkisins.
Sýslumannsembættin hafa heimild til að úrskurða um aukið meðlag að uppfylltum tilteknum lögbundnum skilyrðum. Þó að fyrir hendi sé úrskurður aukið meðlag þá takmarkast greiðsluskylda Tryggingastofnunar við einfalt meðlag. Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir því ekki hærri fjárhæð og mismuninn þarf meðlagsmóttakandi sjálfur að innheimta hjá meðlagsgreiðanda.
Meðlagsgreiðslur eru ótengdar greiðslum almannatrygginga og fjárhæð meðlags er sú sama og fjárhæð barnalífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins.
Að fengnum úrskurði eða staðfestu samkomulagi sýslumanns eru greidd framlög vegna sérstakra útgjalda svo sem við skírn, fermingu, vegna sjúkdóms, tannlækninga, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni. Tryggingastofnun ríkisins annast einnig fyrirframgreiðslu þess til meðlagsmóttakanda.