Ný stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga
Tilkynning frá stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga
14. desember 2021
Ný stjórn yfir Innheimtustofnun
sveitarfélaga
Ný stjórn
hefur verið skipuð yfir Innheimtustofnun sveitarfélaga og starfsemi hennar.
Stjórnin tók við í gær, mánudaginn 13. desember, í kjölfar þess að fráfarandi
stjórn óskaði eftir að stíga til hliðar. Samband íslenskra sveitarfélaga
skipaði tvo fulltrúa í nýja stjórn stofnunarinnar, sem er sameign allra
sveitarfélaga í landinu. Innviðaráðherra skipaði einn fulltrúa, sem jafnframt
verður formaður stjórnarinnar.
Ríkisendurskoðun
hóf úttekt á verkefnum Innheimtustofnunar sveitarfélaga í september sl. að ósk
samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Það var gert vegna fyrirhugaðrar
tilfærslu verkefna Innheimtustofnunar til ríkisins en viljayfirlýsing þess
efnis var undirrituð í janúar fyrr á þessu ári af fulltrúum ríkisins og
Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Úttektinni
er ætlað að greina núverandi skipulag, rekstur og kostnað við verkefni
Innheimtustofnunar og hins vegar að greina með hvaða hætti verkefnum
stofnunarinnar verði best komið fyrir hjá ríkinu.
Ríkisendurskoðun
upplýsti ráðuneytið í byrjun desember m.a. um að svör Innheimtustofnunar
sveitarfélaga við úttektarspurningum væru óviðunandi.
Ný stjórn
Innheimtustofnunar sveitarfélaga ákvað í dag að senda tvo stjórnendur
Innheimtustofnunar í tímabundið leyfi frá störfum til að ný stjórn geti farið
yfir stöðuna og Ríkisendurskoðun lokið úttekt á verkefnum og starfsemi
Innheimtustofnunar. Starfsemi verður að öðru leyti óbreytt.
Innheimtustofnun
sveitarfélaga er sameign allra sveitarfélaga í landinu og er hlutverk hennar að
innheimta meðlög hjá meðlagsskyldum foreldrum sem Tryggingastofnun ríkisins
hefur þegar greitt forráðamönnum barna þeirra á grundvelli laga um
almannatryggingar.
Í nýrri stjórn
sitja Aldís Hilmarsdóttir, formaður, skipuð af innviðaráðherra, Jón Páll Hreinsson og Þóra Björg Jónsdóttir, skipuð af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nýja
stjórnin var skipuð á grundvelli 2. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga,
nr. 54/1971.
Verkefni
nýrrar stjórnar er, auk lögbundinna verkefna, að tryggja að starfsemi
Innheimtustofnunar geti haldist í réttu horfi á meðan farið er yfir starfsemi
stofnunarinnar.