Ábyrgð vinnuveitenda
Þegar Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur verið falið að innheimta meðlagsgreiðslur úr hendi meðlagskylds aðila er meginreglan sú að sá meðlagsskyldi einn er ábyrgur fyrir greiðslum.
Þegar sá meðlagsskyldi greiðir hins vegar ekki í samræmi við skyldu sína getur Innheimtustofnun sveitarfélaga krafist þess að launagreiðandi haldi eftir hluta af launum starfsmannsins og er launagreiðanda þá skylt að verða við slíkri beiðni sbr. 1. tl. 7. mgr. 5. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga nr. 54/1971.
Launagreiðandi verður þá samtímis ábyrgur fyrir greiðslu umkrafðrar skuldar óháð því hvort hann heldur eftir hluta kaupsins eða vanrækir skyldu sína. Launagreiðanda er ávallt skylt að verða við beiðni Innheimtustofnunar en stofnuninni er þó ekki heimilt að krefjast þess að dregin sé hærri fjárhæð af starfsmanni en helmingur launa.
Sé launagreiðandi krafinn um að halda eftir fjárhæð af kaupi launþega sem er hærri en nemur helming kaupverðs starfsmannsins skal vinnuveitandi eingöngu halda eftir helming launa en skal þá jafnframt gera Innheimtustofnun viðvart.
Það athugast að starfsmaður getur sjálfur forðast að gerð sé krafa í laun hans með því að standa skil á greiðslum. Í því tilfelli þegar starfsmaður hefur ekki bolmagn til að standa undir greiðsluskyldu sinni getur hann jafnframt forðast að gerð sé krafa í laun með því að leggja inn umsókn til stjórnar.
Þegar launagreiðandi virðir beiðni Innheimtustofnunar að vettugi verður launagreiðandi engu að síður ábyrgur fyrir kröfunni. Í slíku tilfelli getur Innheimtustofnun sveitarfélaga krafist greiðslu á kröfunni úr hendi launagreiðanda en standi launagreiðandi ekki skil á greiðslum má hann vænta lögfræðiinnheimtu í kjölfarið með tilheyrandi kostnaði. Launagreiðandi getur þurft að sæta greiðsluáskorunum, fjárnámi, nauðungarsölu eða gjaldþroti auk þess sem launagreiðandi má vænta þess að vera skráður á vanskilaskrá Creditinfo.
Slík vanræksla á að skila afdregnu meðlagi getur verið refsiverð og getur átt undir 247. gr. eða eftir atvikum 250. gr. Almennra hegningarlaga nr. 19/1940
Vanræki meðlagsgreiðandi að einhverju eða öllu leyti að verða við innheimtukröfu, getur Innheimtustofnunin:
Krafið kaupgreiðanda um að halda eftir hluta af kaupi eða aflahlut til lúkningar meðlögum. Skulu slíkar kröfur ganga fyrir öðrum kröfum, þ. á m. kröfum sveitarsjóða og innheimtumanna ríkissjóðs.
Þegar launagreiðandi hefur vanrækt skyldu sína, á þann hátt er lýst hefur verið, kann launagreiðanda að berast bréf þess efnis að krafa um afdrátt af launum sé afturkölluð. Slíkt felur ekki í sér að fallið sé frá kröfu á hendur launagreiðanda sem þegar hefur stofnast heldur eingöngu að ekki sé framar farið fram á frekari afdrátt af launum starfsmanns.
Þegar starfsmaður hefur gert samning við Innheimtustofnun sveitarfélaga um greiðslur af meðlagsskuld sinni er launagreiðanda ekki rétt að telja sig lausan undan ábyrgð á tilorðnum kröfum.
Mikilvægt er að launagreiðandi standi skil á afdregnu meðlagi á réttum tíma enda geta vanskil haft teljandi áhrif á hinn meðlagsskylda starfsmann. Vanræksla á réttum skilum getur orðið til þess að samningur starfsmanns við stofnunina falli niður eða að frekari innheimtuaðgerðum verði beint gegn starfsmanni eða vinnuveitanda auk þess sem vanskil geta haft áhrif á útreikning dráttarvaxta.